Tækifæri til umbóta hjá Grunnskóla Fjallabyggðar

Mikil tækifæri eru til umbóta hjá Grunnskóla Fjallabyggðar samkvæmt nýrri skýrslu sem framkvæmd var á ytra mati skólans af sérfræðingum hjá Menntamálastofnun. Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum úr ytra mati á Grunnskóla Fjallabyggðar. Teknir voru fyrir fjórir matsþættir, þar af voru þrír fyrirfram ákveðnir en fjórði matsþátturinn var ákveðinn af sveitarfélagi og skóla. Þættirnir sem lagt var mat á voru stjórnun, nám og kennsla, innra mat og að ósk skóla og sveitarfélags var fjórði þáttur skóli án aðgreiningar. Áhugaverð skýrsla sem foreldrar barna í Grunnskóla Fjallabyggðar ættu að kynna sér.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram:

Stjórnun

Huga þarf að því að skólanámskrá og starfsáætlun séu í fullu samræmi við fyrirmæli í aðalnámskrá. Tryggja verður að skipulag kennsludaga og hlutfall valgreina á elsta stigi sé í samræmi við fyrirmæli í aðalnámskrá.  Virkja ætti skólaráð í vinnu við stefnumótun og áætlanagerð. Kynna betur opinberlega allar niðurstöður úr innra mati. Vinna verður þróunaráætlun með hliðsjón af stefnu skólans og niðurstöðum úr innra og  ytra mati.

Nám og kennsla
Markvisst þarf að vinna að því að bæta árangur nemenda. Uppfæra verður námsáætlanir svo þær byggi á gildandi aðalnámskrá og birta áætlanir um nám og kennslu opinberlega. Sýna í námsvísum og námsáætlunum hvernig komið er til móts við fjölbreyttar þarfir og áhuga allra nemenda. Gera þarf nemendum betur grein fyrir markmiðum náms og auka þátt þeirra í að meta eigin árangur. Samræma þarf námsáætlanir á yngra stigi. Auka verður val nemenda í námi á öllum stigum. Huga að samstarfi nemenda til náms og auka samræður í námi. Skrá þarf og gera opinbert hvernig stuðningur og sérkennsla fer fram við skólann. Setja ætti fram áætlun um skimanir og kannanir sem skólinn gerir til að meta námsstöðu nemenda og einnig hvaða viðmið eru um árangur og til hvaða úrræða eigi að grípa ef viðmiðum er ekki náð.

Innra mat

Huga þarf að mati á kennslu með skipulögðum hætti og að fylgja eftir breytingum á  kennsluháttum með mati. Gera þyrfti grein fyrir hvernig unnið er með  niðurstöður úr ytra mati svo sem samræmdum könnunarprófum og PISA.  Kynna þarf niðurstöður allra þátta innra mats fyrir öllum hagsmunaaðilum og virkja þá til þátttöku í að ákveða áherslur og forgangsröðun í innra mati. Í þróunaráætlun verður að tilgreina aðgerðaráætlun með hverju markmiði og hvenær skal meta hvernig til tókst.

skyrsla