Bætt nýting utan háannar, vaxandi eftirspurn og þörf fyrir fjárfestingu í gistirýmum er einkennandi fyrir þá stöðu sem blasir við í norðlenskri ferðaþjónustu. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í greiningu KPMG á gistirýmum á Norðurlandi, sem unnin var fyrir Markaðsstofu Norðurlands í haust.
Tækifærin til fjárfestingar í gistirýmum á Norðurlandi eru góð, en í skýrslunni kemur fram að nýting hótelherbergja séu í hæstu hæðum og að stærri hótel og hótel í fjölmennari þéttbýliskjörnum séu svo gott sem fullbókuð yfir háannartímann.
Aukið flug og eftirspurn eftir Íslandsferðum
Þessu til viðbótar er útlit fyrir aukna eftirspurn yfir vetrarmánuðina og samkvæmt öllum þeim sviðsmyndum sem koma fram í greiningu KPMG mun nýtingarhlutfall gistirýma hækka í samræmi við það.
Ástæðan er sú að framundan er aukið millilandaflug á Norðurlandi og fjölgun ferðamanna sem koma beint til Norðurlands í samræmi við það, til viðbótar við mikla eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað og fjölgun ferðamanna sem fljúga til Keflavíkur.
Niceair flýgur nú þegar til Danmerkur og Spánar, og mun á vormánuðum bæta Dusseldorf í Þýskalandi við leiðarkerfið sitt. Þýska flugfélagið Condor mun svo hefja flug til Akureyrar í maí og Icelandair hefur hafið sölu á innanlandsflugi frá Keflavík til Akureyrar, sem auðveldar ferðalagið norður til muna fyrir erlenda ferðamenn. Að lokum heldur Voigt Travel svo uppteknum hætti og flýgur áfram á næsta ári frá Amsterdam til Akureyrar að vetri og frá Rotterdam yfir sumarmánuðina.
Aldrei fleiri tækifæri en nú
„Eftirspurn eftir Norðurlandi er greinilega að aukast og einnig þrýstingur frá erlendum ferðaskrifstofum sem selja Ísland að bæta fjölbreyttari vörum í framboð sitt til ferðamanna. Hlutfall endurkomufarþega er að hækka og stefnir stór hluti þeirra sem vilja koma aftur til Íslands á það að heimsækja Norðurland og Vestfirði. Fjárfesting í afþreyingu er greinilega að skila sér og stýrir því að einhverju leyti hvert ferðamenn fara þó náttúruperlur séu enn efst á listanum yfir það. Innanlandsmarkaður er sterkur hér á Norðurlandi, framboð af flugi stöðugt að aukast og tækifærin til uppbyggingar á svæðinu aldrei verið fleiri en nú,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.