Sveitastjórn Skagafjarðar mótmælir vinnubrögðum velferðarráðherra

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á síðasta fundi sínum eftirfarandi ályktun:

Ályktun vegna aðfarar að Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir harðlega þeim niðurskurðartillögum á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki sem áformaðar eru. Sveitarstjórn mótmælir einnig harðlega þeim vinnubrögðum velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, að verða ekki við ítrekaðri beiðni sveitarstjórnar um fund vegna fyrirhugaðs niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum velferðarráðherra, Guðbjarts Hannessonar, að verða ekki við ítrekaðri beiðni sveitarstjórnar um fund vegna fyrirhugaðs niðurskurðar hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs er kveðið á um að áhættumat verði ávallt lagt til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið. Jafnframt að lögð verði áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Þá eigi að kalla fagfólk og notendur til samráðs í sparnaðaraðgerðum.

Þegar þessi orð eru höfð til hliðsjónar við lestur fjárlagafrumvarps næsta árs má hverjum manni vera það ljóst að svokölluð samstarfsyfirlýsing stjórnarflokkanna er aðeins fagurgali sem aldrei hefur staðið til að efna. Keyra á grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu í gegnum fjárlagafrumvarpið, án nokkurs samráðs við fagfólk og íbúa eða tilraunar til samstöðu.

Það er með öllu ólíðandi að Skagfirðingar þurfi að bera þyngri byrðar en aðrir landsmenn þegar kemur að niðurskurði ríkisins í heilbrigðismálum. Boðaður niðurskurður leiðir til áframhaldandi skerðingar á þjónustu og mikilvægir þættir verða með öllu aflagðir. Verði af tillögunum mun heilbrigðisstofnunin verða fyrir óbætanlegum skaða og ekki standa söm á eftir. M.a. á að loka endurhæfingaraðstöðu stofnunarinnar en á meðal hópa sem úthýsa á með þeim hætti eru sjúklingar og vistmenn á stofnuninni, öryrkjar og fatlaðir sem búa á svæðinu, auk vefjagigtar-, hjarta-, lungna- og offitusjúklinga. Þá mun almennum íbúum héraðsins ekki bjóðast þjónusta farandsérfræðinga sem koma með reglubundnum hætti til stofnunarinnar heldur munu þeir og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast um langan veg þar sem er yfir fjallvegi að fara til að sækja slíka þjónustu, sem þykir sjálfsögð annars staðar.

Ef þessi niðurskurður er til marks um norræna velferð frábiðja Skagfirðingar sér hana en óska þess í stað eftir þeirri íslensku velferð sem þó hefur verið í boði fram til þessa.

Með niðurskurðartillögum velferðarráðherra er verið að ganga á svig við jafnan rétt landsmanna til fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita eins og þó er boðið að landsmenn skuli njóta skv. lögum um heilbrigðisþjónustu. Þá virðast niðurskurðartillögurnar í beinni andstöðu við önnur lagaákvæði sem tryggja íbúum jafnan rétt til heilsu sem og ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem staðfestir hafa verið af Íslands hálfu.

Það er afar ósvífið að íbúar Skagafjarðar, sem ekki nutu uppgangs í hinu svokallaða góðæri, skuli nú eiga að bera þyngstu byrðarnar.

Stefán Vagn Stefánsson Sigríður Magnúsdóttir Bjarki Tryggvason Bjarni Jónsson Viggó Jónsson Sigurjón Þórðarson Þorsteinn Tómas Broddason Jón Magnússon Sigríður Svavarsdóttir