Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í síðustu viku fyrir frumvarpi um breytingar á skipulagslögum. Með nýju ákvæði fá sveitarfélög heimild til að skilyrða að hlutdeild hagkvæmra íbúða verði allt að 25% samkvæmt deiliskipulagi. Markmiðið er að auka uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði. Breytingarnar eru liður í aðgerðaáætlun á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í júlí í fyrra um húsnæðisuppbyggingu um land allt.

„Með rammasamningnum lögðum við fram mikilvæga framtíðarsýn til tíu ára um að stórauka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sérstök áhersla var lögð á að byggja hagkvæmar íbúðir, og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu fólks. Liður í þessu er að gera sveitarfélögum kleift að gera kröfu um blöndun íbúðarhúsnæðis fyrir ólíkar þarfir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Innleiðing á Carlsberg-ákvæði

Í frumvarpinu er lagt til að bæta við nýju ákvæði við lögin sem veitir sveitarfélögum heimild til að skilyrða allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir, íbúðir sem uppfylla skilyrði fyrir hlutdeildarlánum og lánum til leiguíbúða sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, samkvæmt lögum um húsnæðismál.

Frumvarpið byggir á tillögum úr vinnu stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði um aðgerðir til að auka framboð á íbúðum og bæta stöðu á húsnæðismarkaði, m.a. á vettvangi átakshóps árið 2019 og síðar vinnu starfshóps árið 2022. Þar var kallað eftir lögfestingu á ákvæði sem ætti sér fyrirmynd í danskri löggjöf og í daglegu tali kallast Carlsberg-ákvæðið.

Ákvæðið er öllu víðtækara en danska fyrirmyndin og nær ekki aðeins til almennra íbúða heldur einnig íbúða sem uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán sem og leiguíbúða sem falla undir skilyrði VIII. kafla laga um húsnæðismál. Er það í samræmi við áðurnefndar tillögur átakshóps og starfshóps sem og rammasamning ríkis og sveitarfélaga.

Hvatning til sveitarfélaga

Í framsöguræðu sagði ráðherra að ákvæðinu væri ætlað að aðstoða sveitarfélög og hvetja þau til að skipuleggja byggð fyrir fjölbreyttari tegundir íbúða og stuðla þannig að því að íbúðaþörf ólíkra hópa sé mætt. Þrátt fyrir að um heimildarákvæði væri að ræða myndi lögfesting ákvæðisins skjóta styrkari stoðum undir ákvörðun sveitarfélaga um að setja fram í skipulagsskilmálum deiliskipulags kröfu um að ákveðið hlutfall af heildarfermetrafjölda verði skilyrtur við tilgreindar tegundir íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði.

„Það er von mín að lögfesting ákvæðisins auðveldi sveitarfélögum að stuðla að félagslegri fjölbreytni í íbúðarhverfum sínum. Þá hef ég þá trú að það muni til lengri tíma stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja betur fjölbreytni búsetuúrræða fyrir almenning.  Stöðugleiki í húsnæðismálum til lengri og skemmri tíma er sameiginlegt hagsmuna- og efnahagsmál okkar allra,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni í dag.