Svavar Örn Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2017

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar var lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi í dag og hófst athöfnin kl. 17:00.  Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2017 var kosinn Svavar Örn Hreiðarsson, knapi frá Hestamannafélaginu Hringur.  Svavar var einnig tilnefndur í fyrra en þá vann kylfingurinn Arnór Snær Guðmundsson frá Golfklúbbnum Hamar.

Árangur Svavars

Svavar Örn hefur verið í fremstu röð á kappreiðarbrautinni undanfarin ár og sló ekki slöku við þetta árið enda var markmið hans að komast á HM í Hollandi með Heklu frá Akureyri og þangað komst hann þó leiðin hafi ekki verið bein né greið. En veltan sem þau tóku saman í sumar Svavar og Hekla, er fyrir löngu orðin heimsfræg. Flestir töldu að þar með væri draumurinn búinn en svo var aldeilis ekki Svavar lætur ekkert stoppa sig hvorki byltur né sjúkdóm sinn MS og hélt áfram að keppa og uppskar það sem stefnt var að, að komast í landsliðið og á HM í Hollandi. 

Besti tími ársins hjá Svavari í 100 m flugskeiði var á Heklu 7,25 sek,  einnig náði hann góðum árangri á Flugari eða 7,78  sek.  Í 250 m skeiði á Svabbi best á árinu 22,68 sek á Heklu og á Þyrli á hann 23,71  sek.

Á stöðulista FEIF (heimsstöðulisti) eru Svavar og Hekla í 2 sæti með meðaltímann 7,45sek.

 

Íslandsmeistaratitlar (eða sambærilegt, t.d. landsliðsúrtak)

Svavar keppti á íslandsmótinu í 100mtr. skeiði á Heklu og urðu þau þar í öðru sæti og á úrtökumóti fyrir HM urður þau sigurvegarar en sá árangur ásamt góðum árangri á öðrum mótum varð til þess að Svavar komst í landsliðið með Heklu og fóru þau á Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Hollandi í ágúst og kepptu í skeiði.  Þar enduðu þau í 3ja sæti í 100mtr. skeiði og 10 sæti í 250mtr. skeiði.

 

Aðrir titlar / sigrar / mót

Svavar var mjög duglegur að keppa á árinu og árangur hans í stuttu máli er:

  • 10 sinnum náði hann í fyrsta sætið
  • 9   sinnum náði hann öðru sæti
  • 5   sinnum náði hann þriðja sætinu