Sumartónleikar í Akureyrarkirkju

Á öðrum Sumartónleikum í Akureyrarkirkju, sunnudaginn 10. júlí kl. 17:00, koma þær Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðluleikari og Dawn Hardwick, píanóleikari fram. Þær flytja íslenska og breska tónlist.

Aðgangur er ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum í lok tónleika. Menningarsjóður Akureyrar og Veitingastaðurinn Strikið styrkja tónleikana.

Samstarf píanistans Dawn Hardwick og fiðluleikarans Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur á rætur að rekja til námsára þeirra í Royal Welsh College of Music and Drama. Í sumar og haust hyggjast þær halda tónleika á Íslandi og í Bretlandi þar sem flutt verður íslensk og bresk tónlist og koma þær fram saman í fyrsta sinn á sumartónleikum í Akureyrarkirkju.