Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur gert samning við Píeta samtökin til þriggja ára í þeim tilgangi að styrkja forvarnir gegn sjálfsvígum. Samningurinn er til þriggja ára og fá Píeta samtökin 25 milljónir króna á ári, eða samtals 75 milljónir á samningstímanum sem er hæsta upphæð í samningum milli félagsmálaráðuneytisins og Píeta hingað til. Fyrri samningar hafa verið gerðir til eins árs en með þriggja ára samning geta samtökin skipulagt starfið lengra fram í tímann og eflt það.

Markmiðið með samningnum er að styrkja Píeta samtökin í vinnu gegn sjálfsvígum, og fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum á Íslandi. Þá  gerir samningurinn Píeta kleift að auka forvarnir og fræðslu vegna sjálfsvígshættu og sjálfsskaða. Starfsemi samtakanna er einkum tvíþætt:

  • Að veita fyrstu hjálp, þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og vera brú í úrræði fyrir aðra.
  • Vera leiðandi í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum á Íslandi m.a. með því að hvetja til aukinnar þekkingar og vitundar í samfélaginu um orsakir og afleiðingar sjálfsvíga og sjálfsskaða.

Allir í sjálfsvígs- og sjálfskaðavanda og aðstandendur þeirra eiga greiðan aðgang að ókeypis ráðgjöf hjá Píeta og boðið er upp á sólarhrings símsvörun.

Píeta veitir fyrstu hjálp, aðgengilega þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og brú í úrræði fyrir aðra. Þjónustan er með öllu gjaldfrjáls og stendur til boða öllum þeim sem hafa náð átján ára aldri. Píeta samtökin vinna einnig að því að efla þekkingu og skilning á sálrænum sársauka og sjálfsvígum. Hjá Píeta starfar fólk með viðeigandi menntun og reynslu. Við meðferðarvinnu starfar aðeins fólk með viðurkennda menntun og opinber starfsleyfi á sviði sálfræði eða geðheilbrigðis auk að minnsta kosti tveggja ára reynslu af klínískri vinnu.

Dr. Sigríður Björk Þormar, formaður stjórnar Píeta: „Þessi samningur markar tímamót í sögu Píetasamtakanna þar sem félagsmálaráðuneytið veitir starfseminni sýn og viðurkenningu. Nú hefur verið tekið stórt skref í að tryggja ákveðinn stöðugleika í rekstri samtakanna til þriggja ára. Það er ákveðinn léttir í húsi Píeta í dag á sjálfum alþjóðlegur forvarnardegi sjálfsvíga og við horfum bjartari augum fram á við. Fyrir hönd Píetasamtakanna þökkum við ráðherra og hans fólki einlæglega fyrir þennan mikilvæga samning.“

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Píeta samtökin eru ómetanleg og það forvarnarstarf sem þau vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða er gríðarlega mikilvægt. Allt þeirra starf er unnið að samúð og virðingu fyrir þeim sem til þeirra leita og ég er ótrúlega stoltur af þessu samstarfi sem við erum að fara í með samtökunum. Með því að gera samning til þriggja ára geta samtökin skipulagt starfið lengra fram í tímann ásamt því að auka forvarnir og fræðslu, sem þýðir þau geta tekið betur á móti einstaklingum sem glíma við sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaða og aðstandendum þeirra.“

Heimild: stjornarrad.is