Stuttar fréttir úr Fjallabyggð

Mikið álag hefur verið á Leikskólanum Leikskálum á Siglufirði undanfarna fjóra mánuði vegna fjarvista starfsmanna, sem eru af margvíslegum toga. Um miðjan febrúar var starfsmaður ráðinn tímabundið fram að sumarfríi í 100% stöðu á leikskólann.

Þjónustusamningar við Allann á Siglufirði og Hótel Brimnes á Ólafsfirði vegna skólamáltíða í Fjallabyggð fyrir árin 2010-2012 falla úr gildi í lok maí nk.
Hafinn er undirbúningur að nýjum útboðsgögnum.
Bjóða þarf skólamáltíðir út fyrir árin 2012-2014 í byrjun apríl. Skyldi Rauðka skella inn tilboði?

Foreldrafundur Grunnskóla Fjallabyggðar var haldinn 14. febrúar sl. með skólastjóra,bæjarstjóra, fræðslu- og menningarfulltrúa og íþrótta- og tómstundafulltrúa Fjallabyggðar.
Fræðslunefnd Fjallabyggðar segist fagna því hversu margir foreldrar sáu sér fært að mæta og minnir á að annar slíkur fundur er fyrirhugaður í haust.

Fræðslunefnd Fjallabyggðar hefur borist undirskriftarlisti frá foreldrum leikskólabarna á Leikhólum á Ólafsfirði þar sem foreldrar mótmæla að íþróttastundir í íþróttahúsinu falli niður fyrir börnin.
Fræðslunefnd Fjallabyggðar segist harma þau mistök sem urðu við gerð fjárhagsáætlunar 2012 sem urðu til þess að íþróttastundirnar féllu niður. Lagt var til að íþróttatímunum fækkuðu úr einum tíma í viku í eitt skipti í mánuði.  Ekki stóð til að íþróttatímarnir yrðu teknir af.

Tónskóli Fjallabyggðar á Ólafsfirði fær brátt nýtt framtíðarhúsnæði á efri hæð í Menningarhúsinu Tjarnarborg á Ólafsfirði. Lögð er áhersla á að þær breytingar sem gera þarf verði kláraðar fyrir næsta skólaár.