Stuðningur við búskaparskógrækt í Vestur–Húnavatnssýslu

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur falið Skógræktinni umsjón með framkvæmd verkefnis í búskaparskógrækt í Vestur-Húnavatnssýslu. Um er að ræða átak til eins ár sem felur m.a. í sér að þróa útfærslur á nýjum skógræktarverkefnum með það að markmiði að bæta búsetuskilyrði, fjölga tækifærum fyrir bændur, auka skógarþekju og brúa bil milli skógræktar og hefðbundins landbúnaðar. Verkefnið tengist einnig skrefum íslensks landbúnaðar í átt til kolefnishlutleysis.

Ráðherra ýtti verkefninu úr vör í heimsókn í Miðfirði í vikunni að viðstöddum fulltrúum Skógræktarinnar, Bændasamtaka Íslands, sveitarstjórnar og heimafólki.

Gert er ráð fyrir að áhersla í skógræktarverkefnum verði á:

  • skjólbeltakerfi fyrir ræktun s.s. hvers konar jarðrækt.
  • skjóllundi fyrir búfé t.d. haustbeit stórgripa, sauðburðarhólf og önnur beitarhólf.
  • beitarskóga í tiltölulega stórum afgirtum beitarstýrðum hólfum.
  • landgræðsluskóga á illa eða ógrónu landi.
  • skjólskóga með fjölbreyttum trjágróðri þar sem tekist er á við staðbundin vindakerfi með það að markmiði að draga úr eða bægja frá sterkum vindstrengjum.
  • akurskógrækt á landi sem ekki nýtist til matvælaframleiðslu að svo stöddu.
  • fjölnytjaskóga með einhver af ofangreindum markmiðum sem og timburnytjar.

Skógræktin mun vinna með bændum að þessu verkefni, veita þeim ráðgjöf og fara yfir þá kosti sem verða í boði varðandi ofangreinda flokka skógræktar og hvernig þeir geta stutt við annan landbúnað og bætt skilyrði til búsetu. Leitað verður eftir viðhorfi bænda á svæðinu til núverandi stuðningskerfis í skógrækt og hvort og þá hverju þyrfti að breyta svo þeir sjái hag í þátttöku í því. Einnig verður leitað eftir samstarfi við hagsmunasamtök bænda.

sigrun