Klukkan 13:00 barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning um að snjóflóð hefði fallið á Böggvisstaðadal ofan Dalvíkur. Talið var í fyrstu að nokkrir vélsleðamenn hefðu mögulega lent í flóðinu og var því allt viðbragð í Eyjafirði virkjað og því stefnt á svæðið sem og þyrlu LHG. Aðgerðastjórn var virkjuð á Akureyri sem og Samhæfingastöðin í Reykjavík.
Þegar fyrstu viðbragðsaðilar voru komnir inn á Böggvisstaðadal náðist yfirsýn um stöðuna og kom þá í ljós að hópur vélsleðamanna hafði líklega sett stórt snjóflóð af stað í Dýjadal, sem er inn af Böggvisstaðadal, en enginn þeirra lent í flóðinu. Hópur fólks á skíðum, sem hafði verið í nágrenninu og tilkynnt um flóðið, var einnig óhult.
Laust fyrir kl. 14:00 var staðan metin þannig að nánast engar líkur væru á því að einhver hefði lent í flóðinu og var þá stærstum hluta viðbragðsaðila snúið frá. Til að tryggja samt endanlega að enginn hefði lent í flóðinu var unnið áfram að því með drónum að skoða allt svæðið nánar.
Vakin er athygli á því að mikil snjóflóðahætta er á Norðurlandi í kjölfar mikillar snjókomu nú um páskana og er útivistarfólk hvatt til að huga vel að því á ferðum sínum.