Stórt snjóflóð féll á Stóra-Bola á Siglufirði

Í veðrinu sem gekk yfir norðurhluta landsins í síðustu viku féllu mörg snjóflóð, einkum á norðanverðum Vestfjörðum og á Tröllaskaga. Snjóflóð lokuðu vegum og nokkuð stórt snjóflóð féll á varnargarðinn Stóra-Bola sem er leiðigarður undir Strengsgili á Siglufirði. Garðurinn sinnti hlutverki sínu vel og beindi flóðinu í átt frá byggðinni og nam flóðið staðar við garðendann. Eins og sjá má á meðfylgjandi korti er ekki ólíklegt að flóðið hefði náð niður í byggð ef garðurinn hefði ekki beint því til suðurs. Sjá mátti ummerki um flóðið á garðinum sem benda til þess að það hafi náð upp í u.þ.b. þriðjungi af hæð garðsins sem er 18 metra hár. Flóðið bar með sér stóra grjóthnullunga og það reif með sér girðingu og snjódýptarmæli sem komið hafði verið fyrir í efri hluta hlíðarinnar.

Suðurhluti Siglufjarðar var eitt af þeim svæðum í byggð þar sem snjóflóðahætta var hvað mest fyrir byggingu garðsins sem reistur var árið 1999. Á hann hafa áður fallið nokkur flóð.

Texti: vedur.is