Stöngin inn var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2013

Samvinnuverkefni Leikfélags Ólafsfjarðar og Leikfélags Siglufjarðar, Stöngin inn var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2013 af valnefnd Þjóðleikhússins. Fulltrúi Þjóðleikhússins, Þórhallur SIgurðsson, tilkynnti niðurstöðuna á aðalfundi BÍL sem haldinn var í Logalandi í Borgarfirði nú um helgina. Stöngin inn er eftir Guðmund Ólafsson sem jafnframt leikstýrir. Félögunum hefur verið boðið sýna verkið í Þjóðleikhúsinu.

Greinargerð valnefndar:

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta sinn. Að þessu sinni sóttu alls sautján leikfélög um að koma til greina við valið, með jafn margar sýningar. Það var afar ánægjulegt að skoða þessar fjölbreyttu sýningar, víðsvegar að af landinu og verða enn á ný vitni að gróskunni í starfi áhugaleikfélaganna. Til þess að gæta jafnræðis milli leikfélaganna voru allar sýningar skoðaðar af upptöku á DVD, og rétt er að nota tækifærið og minna á mikilvægi þess að mynd- og hljóðgæði séu nægileg.

Í dómnefnd í ár sátu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri, Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins og leikararnir Edda Arnljótsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.

Heimild: leiklist.is