Sýning leikfélags Ólafsfjarðar og leikfélags Siglufjarðar á Stöngin inn var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2012-2013. Sýningin verður sýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 16. júní. Höfundur og leikstjóri er Guðmundur Ólafsson.
Að þessu sinni sóttu alls sautján leikfélög um að koma til greina við valið, með jafn margar sýningar. Í dómnefnd í ár sátu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri, Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins og leikararnir Edda Arnljótsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.
Umsögn dómnefndar um sýninguna:
Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar sameinuðu krafta sína í uppsetningunni á þessu skemmtilega nýja íslenska verki eftir Guðmund Ólafsson með frábærum árangri. Það er greinilega mikill kraftur í hinum sameinuðu leikfélögum, sem láta sig ekki muna um að brjótast í gegnum skaflana í Héðinsfirði til að skapa skemmtilega og fjöruga leiklist sem hefur hitt rækilega í mark í heimahéraði.
Leikritið vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann, en hér eru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli, og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti. Hugmyndin virkar þrælvel og er vel heppnað og gamansamt innlegg í umræðuna um samskipti kynjanna.
Verkið hentar leikhópnum vel, leikgleðin er mikil og leikararnir ná að móta bráðskemmtilegar persónur. Skýr framsögn, góð tilfinning fyrir tímasetningum og ákveðin hlýja gagnvart persónunum og viðfangsefninu skilar bráðfyndinni og skemmtilegri leiksýningu.
Heimild: www.leikhusid.is