Steypustöðin stendur enn þremur árum eftir lok Héðinsfjarðarganga

Frágangi vegna Héðinsfjarðarganga er enn ólokið á Ólafsfirði. Enn standa byggingar og efni sem mokað var úr göngunum á svæðinu, en þrjú ár eru liðin frá því að gangagerð lauk.

Mörgum bæjarbúum í Ólafsfirði finnst lítil prýði að steypustöð, vinnuskúrum, skemmu og efnishaugum sem enn standa á svæðinu frá þeim tíma er framkvæmdir við göngin stóðu yfir. Jón Magnússon, hjá Vegagerðinni, segir í viðtali við RÚV að Vegagerðin hafi gert samning við Fjallabyggð um frágang á haugum í kringum hesthúsin og greitt sveitarfélaginu fyrir en þeirri framkvæmd er enn ólokið. Eins sé Vegagerðin með yfirlýsingu um það að sveitarfélagið beri ábyrgð á mannvirkjum verktaka á svæðinu.

Hvað byggingarnar varðar segir Ármann Viðar Sigurðssonar, deildarstjóri umhverfisdeildar Fjallabyggðar, að ýtt hafi verið eftir því að þær yrðu fjarðlægðar en málið hefur þokast hægt vegna þess að sumar byggingarnar hafa verið seldar og skipt um eigendur. Segir hann bagalegt hversu lengi frágangur hafi dregist en allt kapp verður lagt á það að lokið verði við frágang næsta vor.
Steypustöðin sést til hægri á myndinni í bláum lit, Héðinsfjarðargöng til vinstri.


Ljósmynd: Ragnar Magnússon.
Heimild: rúv.is