Stefnuskrá H-listans Fyrir heildina

Við í H-listanum erum búin að taka okkur góðan tíma í að vinna stefnuskránna okkar, þetta er búin að vera mikil, fræðandi og umfram allt skemmtileg vinna. H-listinn samanstendur af fólki úr ýmsum áttum í sveitarfélaginu, öll með það að markmiði að gera góða Fjallabyggð enn betri. …….Fyrir Fólkið …….Fyrir umhverfið …….Fyrir Samfélagið …….Fyrir Heildina.

Jón Valgeir Baldursson, Oddviti H-listans í Fjallabyggð.

Image may contain: text

Stefnuskrá H-listans fyrir sveitarstjórnarkosningar í Fjallabyggð maí 2018

……….Fyrir Fólkið

……….Fyrir Umhverfið

……….Fyrir Samfélagið

……….FYRIR HEILDINA

 

Stjórnsýslan

Stjórnsýslan þarf að vera skilvirk, gagnsæ og lýðræðisleg og ákvarðanir skýrar og vel rökstuddar. Lögð verði áhersla á þátttöku íbúa í málefnum og stefnumótun Fjallabyggðar.

 

Við ætlum að…

 • fara í viðræður við Arion banka um makaskipti á húsnæði sveitarfélagins að Ólafsvegi 4, og Aðalgötu 14, Ólafsfirði. Þar verði þá starfrækt m.a. bókasafn, héraðsskjalasafn og upplýsingamiðstöð. Einnig verði efsta hæðin nýtt undir félagsmiðstöðina Neon.
 • hafa fasta viðveru starfsmanna sveitarfélagins í báðum byggðakjörnum.
 • bjóða upp á fasta viðtalstíma bæjarfulltrúa Fjallabyggðar einu sinni í mánuði.
 • halda áfram að vinna að bættum fjárhag sveitarfélagins. Fjármálastefnan verði ábyrg.
 • tryggja íbúum gott aðgengi að upplýsingum. Meðal annars með því að opna bókhald sveitarfélagins fyrir íbúum í anda lýðræðis og gagnsæi.
 • gera framkvæmdaáætlun til lengri tíma í senn og hafa vel aðgengilega á heimasíðu Fjallabyggðar. Allar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verði vandlega undirbúnar.
 • auka vægi umhverfismála í Skipulags- og umhverfisnefnd og að jafnframt verði nafni nefndarinnar breytt í Umhverfisnefnd.
 • endurskoða álagningarprósentu fasteignagjalda í sveitarfélaginu.

Samfélagið

H-listinn vill stuðla að því að ungt fólk og fjölskyldur þeirra sjái tækifæri í því að velja Fjallabyggð sér til búsetu.

Fjallabyggð verði heilsueflandi samfélag með áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi.

Í samfélaginu verði blómlegt menningar- og atvinnulíf.

 

Við ætlum að…

 • koma á reglulegum samgöngum, milli byggðakjarna, fram á kvöld.
  Bættum samgöngum hefur verið lofað frá sameiningu sveitarfélaganna, nú er kominn tími á aðgerðir.
 • setja ærslabelgi (stórar uppblásnar hoppudýnur) og boot-camp svæði í báða byggðakjarna .
 • koma fyrir fleiri borðum og bekkjum og setja leiktæki á útivistar- og opin svæði.
 • gera listaverkasafn Fjallabyggðar sýnilegt – að fundið verði framtíðarhúsnæði.
 • bæta aðstöðu og búnað í Menningarhúsinu Tjarnarborg og efla þannig menningartengda ferðaþjónustu.
 • halda áfram að styðja við þær bæjarhátíðir sem hafa fest sig í sessi hér og vera einnig opin fyrir því að aðstoða og styrkja nýja viðburði sem áhugi er fyrir.
 • styðja í auknum mæli við starf íþróttafélaga með það að markmiði að efla forvarnarstarf í sveitarfélaginu, t.d. með því að auka styrkinn til UÍF.
 • taka til hendinni og mæta þeirri uppsöfnuðu þörf sem komin er varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja.
 • halda árlega lýðheilsuviku.

Atvinnumál

 

Við ætlum að…

 • styðja við fyrirtæki í sveitarfélaginu á þann hátt að sveitarfélagið beini viðskiptum sínum til heimamanna eins og kostur er.
 • vinna að því í samstarfi við heimamenn að markaðssetja Fjallabyggð sem álitlegan valkost fyrir ferðamenn og fyrirtæki í ferðaþjónustu.
 • sjá til þess að Fjallabyggðarhafnir verði markvisst markaðssettar sem álitlegur kostur til útgerðar og annarrar hafnsækinnar starfsemi.
 • leita leiða til að fá auknar tekjur af komum ferðamanna á skemmtiferðaskipum.
 • kynna reglur um stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki reglulega og hvetja þannig til atvinnusköpunar.
 • kanna hvað sveitarfélagið geti gert fyrir það fólk sem er án atvinnu í Fjallabyggð, m.a. með því að tryggja atvinnulausum sumarstörf í sveitarfélaginu sé þess kostur.
 • ýta á eftir því að flutningsleiðir raforku verði efldar á svæðinu og að Fjallabyggð verði tryggt afhendingaröryggi á nægri raforku.

 

Umhverfismál
H-listinn setur umhverfismál í forgang. Fjallabyggð getur orðið til fyrirmyndar í umhverfismálum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

Við ætlum að…

 • ráða umhverfisfulltrúa.
 • vinna með fyrirtækjum og íbúum að því sameiginlega markmiði að gera umhverfi okkar í Fjallabyggð aðlaðandi fyrir alla.
 • gera stórátak í að snyrta opin svæði m.a. með gróðursetningu trjáa, hellulögnum og garðbekkjum. Einnig munum við leita til íbúa um tillögur að frekari skreytingum á svæðum í Fjallabyggð.
 • halda samkeppni um bæjartákn sem sett verði upp við innkomu í bæjarkjarnana.
 • gera áætlun um að draga verulega úr plastnotkun í Fjallabyggð í samráði við fyrirtæki og stofnanir.
 • taka til endurskoðunar ný samþykkt deiliskipulag miðbæjar á Siglufirði með það að markmiði að stækka torgið á kostnað bílastæða. Í kjölfarið verði farið í framkvæmdir á árinu 2019.
 • skipuleggja miðbæjarsvæði í Ólafsfirði.
 • klára framkvæmdir á tjaldsvæðum Fjallabyggðar, gera þau meira aðlaðandi og að þau uppfylli kröfur um aðbúnað.
 • fara yfir hvernig til hefur tekist í sorpmálum í Fjallabyggð varðandi flokkun. Fylgja eftir áætlunum um að flokkun á sorpi aukist ár frá ári, að urðun á sorpi verði síðasti valkostur. Kanna möguleika á að koma upp nytjamarkaði.
 • koma fyrir ruslagámum í bæjarkjörnunum á vorin og hvetja þar með íbúa í hreinsunarátak fyrir sumarið.
 • bæta ásýnd hafnasvæðanna í Fjallabyggð og skipuleggja hafnasvæðin með aukna umferð ferðamanna í huga.
 • fara í markvissar lagfæringar á gangstéttum, göngustígum og opnum svæðum.
 • sjá til þess að sveitarfélagið hlúi að fasteignum sínum og lóðum og sýni þar gott fordæmi.
 • fella niður gatnagerðargjöld á byggingalóðum sem standa við götur sem búið er að byggja upp. Eingöngu innheimta tengigjöld fyrir vatn og fráveitu.
 • huga betur að snjómokstri á gangstéttum og göngustígum.
 • setja aðstöðuhús með hreinlætisaðstöðu í báða byggðarkjarna sem almenningur getur nýtt sér gegn vægu gjaldi.
 • kanna áhuga og grundvöll fyrir því að koma á matjurtagörðum í Fjallabyggð.

 

 


Fólkið

H-listanum er umhugað um fólkið í samfélaginu og viljum við bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa Fjallabyggðar.

H-listinn vill vinna að því að ná meiri sátt og samhljóm á meðal íbúa samfélagsins um fræðslu- og skólamál í Fjallabyggð.

 

Við ætlum að…

 • láta gera nýtt ytra mat á Grunnskóla Fjallabyggðar til að fá sýn á stöðu skólans í dag.
 • hækka systkinaafsláttinn og koma á tengingu milli leikskóla og skólavistunar. Fyrir yngsta barn verði greitt fullt gjald. Fyrir annað barn verði veittur 50% afsláttur og fyrir þriðja barn og umfram verði veittur 100% afsláttur.
 • hækka frístundastyrkinn úr 30.000 kr. í 40.000 kr. og gera hann rafrænan, sem auðveldar ráðstöfun hans.
 • stefna að því að Grunnskóli Fjallabyggðar verði gjaldfrjáls. Það þýðir að öllum nemendum verði boðið upp á skólamáltíð sér að kostnaðarlausu og áfram verði námsgögn innifalin.
 • vinna að því að fjölga leikskólakennurum, m.a. með því auðvelda starfsmönnum leikskólans aðgengi að náms-/fræðslustyrk.
 • huga að búsetuúrræðum og málefnum eldri borgara, öryrkja og fatlaðra í Fjallabyggð.
 • sjá til þess að öldungaráð og unglingaráð verði áfram starfræktar sem fastanefndir í skipuriti Fjallabyggðar.
 • halda uppi öflugu félagsstarfi eldri borgara í Fjallabyggð með áherslu á gott aðgengi að tómstundum, bættri heilsu og auknum lífsgæðum.
 • hafa frítt í íþróttamiðstöðvar Fjallabyggðar fyrir eldri borgara og öryrkja með lögheimili í Fjallabyggð.
 • vera vel undirbúin til að innleiða NPA (Notendastýrða persónulega aðstoð) löggjöfina, fyrir fólk með fatlanir þegar lögin taka gildi í haust.
 • sjá til þess að félagsleg ráðgjöf verði efld og tryggð verði atvinna, með stuðningi fyrir fólk með fatlanir í Fjallabyggð.

 

Opinber þjónusta

Góð heilbrigðisþjónusta er ein forsenda búsetu í hverju samfélagi.

H-listinn ætlar að gæta hagsmuna Fjallabyggðar gagnvart ríkinu hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Sama á við um samgöngur og löggæslu.