Það er sjaldan logn hjá teyminu í Norðanátt, en í haust hefst hraðallinn Startup Stormur, sem ætlaður er fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Norðurlandi sem eru að vinna að grænum nýsköpunarverkefnum.

,,Startup Stormur er sjö vikna hraðall beint að sjálfbærni, með áherslu á mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá rými, hvatningu og aðstoð við að vaxa og efla sig og sín verkefni”, segir Kolfinna María Níelsdóttir, verkefnastjóri Norðanáttar.

 

Þátttakendur stjórna ferðinni

Yfir sjö vikna tímabil munu þátttakendur hitta reynslumikla leiðbeinendur, aðra frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi. Dagskráin er sérhönnuð með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða.

 

,,Hraðallinn er frjór vettvangur fyrir norðlenska sprota til að þróa hugmyndir sínar og vörur, læra um rekstur fyrirtækja, markaðssetningu, undirbúa fjármögnun og margt fleira. Við aðstoðum þátttakendum að komast lengra með sín verkefni þó vinnan liggi  að sjálfsögðu mest hjá þeim.”

 

,,Við erum þakklát því að hljóta stuðning frá Umhverfis- orku-, og loftslagsráðuneytinu fyrir því að keyra þetta verkefni áfram og endurtaka hringrás nýsköpunar á Norðurlandi. Grasrótin skiptir gríðarlega miklu máli og spilar Norðanátt þar stórt hlutverk. Okkar markmið er að þétta möskvana og efla vistkerfi nýsköpunar á svæðinu”, segir Kolfinna.

 

Kynningarfundur um Startup Storm fer fram þann 5. september í gegnum netið og er umsóknarfrestur í hraðalinn til og með 21. september nk.

 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Norðanáttar – www.nordanatt.is.

*Að Norðanátt standa Eimur, SSNV og SSNE. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið er bakhjarl verkefnisins.