Starfsmannafélag Fjallabyggðar sameinast Kili

Félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjallabyggðar samþykktu einróma að sameina félagið Kili stéttarfélagi starfsmanna í almannaþjónustu á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Sameiningin tekur þegar gildi en bókhaldsleg sameining verður um áramótin. Þetta kemur fram á vef bsrb.is.

Þetta er fjórða félagið sem sameinast Kili á skömmum tíma, en áður höfðu félagsmenn í Starfsmannafélagi Fjarðabyggðar, Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellssýslu og Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum samþykkt að sameina félögin Kili. Kjölur er eitt af stærstu og öflugustu aðildarfélögum BSRB og ljóst að sameiningarnar verða til þess að styrkja stöðu félagsmanna í öllum félögunum sem nú hafa sameinast. BSRB óskar félögunum til hamingju með þessar sameiningar.

Kjölur er deildaskipt félag og í kjölfar sameiningarinnar verður stofnuð St.Fjall deild innan Kjalar. Aðrar deildir félagsins eru: Akureyri, Borgarbyggð, Dala – og Snæfellssýslu, Dalvíkurbyggð, Fjarðabyggð, Húnavatnssýslum, Siglufirði, Sveitarfélaginu Skagafirði og Vestfjörðum. Við sameininguna tekur Guðbjörn Arngrímsson, fráfarandi formaður Starfsmannafélags Fjallabyggðar, sæti í stjórn Kjalar.

Félagsaldur félagsmanna Starfsmannafélags Fjallabyggðar flyst að fullu til sjóða Kjalar stéttarfélags, orlofssjóðs og starfsmenntasjóðs. Til áramóta verður afgreiðsla styrkja starfsmenntasjóðs og afgreiðsla orlofshúsa með óbreyttu sniði.