Starfshópur um bættar félagslegar aðstæður fanga að lokinni afplánun

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað starfshóp sem fjalla á um leiðir til að bæta félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi.

Hlutverk starfshópsins er meðal annars að koma með tillögur um hvernig unnt sé að styðja fanga og fyrrum fanga betur til þátttöku í samfélaginu að lokinni afplánun, auka virkni þeirra til atvinnuþátttöku og/eða náms, draga úr endurkomutíðni í fangelsi, lækka hlutfall þeirra sem verða öryrkjar í kjölfar afplánunar og draga úr félagslegum vandamálum þeirra.

„Þetta er brýnt samfélagslegt verkefni sem skiptir miklu máli. Það er skelfilegt ef fólk sem fer út af sporinu en vill svo gjarna snúa við blaðinu í kjölfar afplánunar fær ekki til þess stuðning og tækifæri. Við þurfum að rjúfa þann vítahring sem of margir lenda í af því að þeir fá ekki nauðsynlegan stuðning“ segir félags- og jafnréttismálaráðherra sem í dag veitti Afstöðu, félagi fanga á Íslandi 250.000 króna styrk til að efla úrræði fyrir fanga eftir afplánun og fjölskyldur þeirra.

Formaður starfshópsins og fulltrúi félags- og jafnréttismálaráðherra er Þorlákur Morthens. Aðrir fulltrúar í starfshópnum eru;

  • Ingibjörg Sveinsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðherra
  • Ragnheiður Bóasdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðherra
  • Guðmundur Ingi Þóroddsson, tilnefndur af Afstöðu, félagi fanga á Íslandi
  • Jón Þór Kvaran, tilnefndur af Fangelsismálastofnun ríkisins
  • Sigrún Þórarinsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Laufey Gunnlaugsdóttir, tilnefnd af Vinnumálastofnun.