Via Nostra er nýstofnað fræðslusamfélag í eigu kennara og starfsfólks Menntaskólans á Tröllaskaga.

Einkunnarorð MTR eru frumkvæði, sköpun og áræði og hafa þessi einkunnarorð endurspeglast í einstöku námsframboði, kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum. Starf skólans hefur víða vakið athygli, sérstaklega erlendis, og hefur myndast eftirspurn eftir námskeiðum og fyrirlestrum frá kennurum skólans sem og heimsóknum í skólann. Þar sem slík rekstrareining á ekki heima innan starfsemi eða fjárhags ríkisrekins framhaldsskóla tóku áhugasamir kennarar sig til og stofnuðu Via Nostra sem hefur merkinguna okkar leið.

Eigendur Via Nostra eru 21 talsins og eru þeir allir hluti af starfsfólki Menntaskólans á Tröllaskaga.

Via Nostra býður upp á styrkhæf Erasmus námskeið þar sem áhersla er lögð á þekkingu, styrkleika og sérkenni kennarasamfélags MTR en í því felst m.a. skapandi verkefnaskil, upplýsingatækni í námi, listkennsla og hvernig hægt er að flétta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sjálfbærni og umhverfisvitund inn í námið.

Via Nostra býður einnig upp á námskeið sem eru styrkhæf af starfsmenntunarstyrkjum Kennarasambands Íslands. Þau námskeið eru haldin bæði á Íslandi og erlendis og taka sömuleiðis mið af þekkingu, styrkleikum og sérkennum kennarasamfélags MTR.

 

Texti frá heimasíðu Via Nostra.