Laugardaginn 1. ágúst var opnuð biblíusýning í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal. Sýndar verða meða annars biblíur sem ríkisstjórnin gaf Hóladómkirkju á 900 ára afmæli biskupsstóls á Hólum árið 2006. Biblíurnar voru úr safni sr. Ragnars Fjalars Lárussonar.
Mun þetta vera eitt stærsta biblíusafn landsins. Sýningin er nú í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags, en það var stofnað þann 10. júlí árið 1815 og telst elsta starfandi félags landsins. Á Hólum var prentuð fyrsta íslenska biblían, Guðbrandsbiblía, árið 1584 og er hún til sýnis í Hóladómkirkju.
Sýningin er opin alla daga í ágúst kl. 10-18 og er aðgangur ókeypis.