Staðfest hópsmit á Dalvík – á þriðja tug smitaðir

Í gær vaknaði grunur um hópsmit á Dalvík og hófust þá strax aðgerðir varðandi sýnatökur þar í dag. Voru allir starfsmenn og nemendum Dalvíkurskóla, ásamt fleirum, skimaðir í dag og liggur skólahald niðri.
Nú liggur fyrir að á þriðja tug íbúa á Dalvík og Dalvíkurbyggð eru smitaðir og er rakningateymið að vinna úr þeirri niðurstöðu.
Íbúar á þessu svæði eru hvattir til að gæta sérstaklega vel að sér og huga að smitvörnum og slá mannamótum á frest.
Nú er orðið ljóst að í það minnsta 4 starfsmenn Dalvíkurskóla eru smitaðir af covid og nokkrir nemendur, allavega 10 í 1. bekk og 2 í 6. bekk sem vitað er um.
Eftirtaldir bekkir eru í sóttkví: 1., 3., 5., og 6. og allir frístundarnemendur. Þá eru nemendur í 7.-9. bekk beðnir um að fara í sóttkví ef þeir telja sig hafa verið í mikilli nálægð við kennarann.
Þá hafa komið upp nokkur smit á Raufarhöfn og Kópaskeri og hvetjum við íbúa þar að gæta sérstaklega að sér og viðhalda smitvörnum að fremsta megni.