Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Umfjöllun:

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Ægi úr Þorlákshöfn á Ólafsfjarðarvelli í 18. umferð Íslandsmótsins. Ægir hefur verið í toppsætunum í deildinni og verið líklegt í baráttunni um laust sæti í 1. deildinni. Þeir hafa þó ekki verið að ná góðum úrslitum í síðustu umferðum. KF vann dýrmætan sigur á Magna í síðustu umferð og freistuðu þess að ná aftur sigri í þessum heimaleik. Það var mikil markaveisla síðast þegar liðin mættust í fyrri umferðinni, en Ægir vann þá 5-3 og var alveg eins búist við markaveislu aftur.

KF var með nokkuð breytt lið, en Ljubomir Delic byrjaði óvænt á bekknum ásamt markahæsta manni liðsins, Julio Cesar Fernandes sem kom til liðsins í vor og hefur staðið sig vel. Þá var Hákon Leó ekki með vegna veikinda og Grétar Áki byrjaði leikinn á bekknum.

KF fékk draumabyrjun þegar Sævar Gylfason skoraði strax á 5. mínútu leiksins og kom heimamönnum í 1-0. Þetta gaf strax tóninn og Sævar Þór Fylkisson skoraði annað mark KF tæpu korteri síðar og kom þeim í vænlega stöðu 2-0. Forráðamaður Ægis á bekknum reifst í dómaranum eftir síðara markið og fékk beint rautt. Aðstoðarþjálfari Ægis og leikmaður fengu einnig gult spjald fyrir mótmæli á sama tíma. Nú var dómarinn orðinn heitur með spjaldið.

Daniel Kristiansen leikmaður KF fékk ódýrt gult spjald á sig á 38. mínútu. KF leiddi 2-0 í hálfleik og voru í góðri stöðu.

Dómarinn mætti í miklu stuði í síðari hálfleik og var tilbúinn með öll spjöldin í vasanum. Benjamin Omerovic leikmaður KF fékk gult spjald á 52. mínútu og Daniel Kristiansen fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 56. mínútu og var KF því orðið leikmanni færri í baráttunni.  Jón Árni Sigurðsson aðstoðarþjálfari KF fékk í framhaldinu gult spjald fyrir mótmæli.

Grétar Áki kom inná miðjuna eftir að KF missti mann út af en Þorsteinn Már Þorvaldsson kom útaf.

Gestirnir frá Þorlákshöfn minnkuðu muninn í 2-1 á 62. mínútu og í framhaldinu kom Ljubomir Delic inná fyrir KF. Ægir jafnaði svo leikinn á 73. mínútu og var nú staðan orðin 2-2 og KF enn manni færri.

Enn veifaði dómarinn gula spjaldinu og nú var það Jordan Damachoua varnartengiliður KF sem fékk spjaldið. Þjálfari KF gerði eina skiptingu á 90. mínútu þegar Sævar Þór Fylkisson kom útaf, en hans leik var þó ekki lokið að mati dómarans.  Sóknarmaðurinn Julio Cesar Fernandes kom inná síðustu mínútur leiksins fyrir KF.

Enn voru mótmæli við dómarann og enn fann hann rauða spjaldið sitt góða. Nú var það liðstjóri KF, Halldór Ingvar Guðmundsson sem fékk spjaldið og einnig Sævar Þór Fylkisson sem var nú kominn út af og sestur á bekkinn.

Lokatölur 2-2 í þessum leik dómarans, og voru KF menn allt annað en sáttir við störf Helga Ólafssonar dómara í þessum leik. Ljóst er að nokkrir leikmenn og úr starfsliði KF verða í leikbanni í næsta leik. Niðurstaða dómarans, 8 gul spjöld og 4 rauð.

KF er í 8. sæti deildarinnar með 19 stig þegar fjórar umferðir eru eftir.