Í Hlíðarfjalli á Akureyri er góð aðstaða til útivistar bæði fyrir hjólreiða- og göngufólk. Hjólagarður Hlíðarfjalls er opinn frá 7. júlí til 10. september og þá er hægt að nýta Fjarkann til að koma sér hærra upp í fjallið.

Áætlað er að Fjallkonan, nýja stólalyftan, verði opin frá 29. júlí til 20. ágúst á laugardögum og sunnudögum frá kl. 10-15.

Hægt er að taka hjólið með sér í Fjarkann og fyrir fótgangandi gildir lyftumiðinn fram og til baka. Ekki er hægt að taka með sér hjól í Fjallkonuna en þeir sem eru gangandi geta tekið fyrst Fjarkann og gengið svo niður um 200 metra og farið upp með Fjallkonunni. Við endastöð Fjallkonunnar er slóði til norðurs, Sneiðingurinn, en þaðan tekur um það bil 20-30 mín að ganga til að komast upp á hæstu hæðir Hlíðarfjalls.

Fyrir þá sem vilja ganga frá Strýtuskála er tilvalið að njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Þegar þangað er komið er til dæmis hægt að ganga að Harðarvörðu, Blátindi, Bungu, Strýtu, Kistu eða á Vindheimajökul og á góðviðrisdögum má oft sjá yfir í Mývatnssveit, Herðubreið eða vestur í Skagafjörð svo eitthvað sé nefnt.

Lyftumiðar eru seldir við Fjarkann og á heimasíðu Hlíðarfjalls.

Hlíðarfjall og Hjólreiðafélag Akureyrar bjóða upp á sex hjólabrautir í fjallinu í sumar: Suðurgil, Andrés, Hjalteyrin, Ævintýraleið, gamla downhill brautin og ný byrjendabraut við veginn upp að skíðagönguhúsi. Einnig eru þrjár leiðir, Gosi, Drottning og Hrúturinn, tvær frá gönguhúsi og ein frá lyftuskúr við Fjarkann sem allar liggja yfir í Glerárdal.

Opið: Lyftumiðar: Fullorðnir: Börn:
Fimmtudaga frá kl. 17-21 Ein ferð 1.430 740
Föstudaga frá kl. 17-21 1. dagur (fim-fös) 4.300 1.260
Laugardaga frá kl. 10-17 1. dagur (lau-sun) 5.400 1.800
Sunnudaga frá kl. 10-16 Helgarpassi (fim-sun) 14.300 4.100
Sumarkort 30.250 7.700