Í morgun kl. 9:00 opnaði Sparisjóður Höfðhverfinga á Grenivík þjónustuskrifstofu á Akureyri. „Munurinn á þjónustuskrifstofu og útibúi er sá að við erum ekki komin með gjaldkera en vonumst til þess að hann verði kominn hér innan tíðar og þá erum við komin með gott útibú,“ segir Jenný Jóakimsdóttir sparisjóðsstjóri. Í dag sé tekið á móti viðskiptavinum og þau vonist til sjá nýja viðskiptavini bætast í hóp þeirra sem fyrir eru. Viðtökur hafi verið góðar þann stutta tíma sem hefur verið opið í dag en fólk hafi verið mætt fyrir klukkan níu í morgun og búið að vera stanslaust síðan.

Aðspurð um ástæðu þess að sparisjóðurinn færir út kvíarnar til Akureyrar segir Jenný að með sameiningu Byrs og Íslandsbanka sjái sparisjóðurinn tækifæri til að koma inn og bjóða hefðbundna sparisjóðaþjónustu eins og hún gerist best á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu. „Byr á Akureyri hefur þjónustað okkar viðskiptavini. Til dæmis hafa þeir getað tekið út peninga, afgreitt debetkort og gert ýmislegt fyrir okkur. Nú þegar það er komið inn í Íslandsbanka er gott að hér sé til sparisjóður sem geti þá líka þjónustað viðskiptavini sparisjóða annars staðar af landinu.“

Jenný segir að þeim finnist sannarlega vera pláss fyrir sparisjóð á Akureyri. „Við erum gamall sparisjóður, stofnaður 1879, og höfum fyrst og fremst þjónustað viðskiptavini okkar í gegnum eiginleg bankaviðskipti eins og innlán og útlán.“

Heimild: mbl.is