Svo skrifar Sólveig Lára nýkjörin vígslubiskup að Hólum:

Hver verða fyrstu verk þín í embætti?   Þetta er spurning sem oft er spurð þegar stefnt er á nýtt starf. Ég var ákveðin í því allan tímann meðan ég var að ferðast milli söfnuða  Hólastiftis að ég myndi láta það verða mitt fyrsta verk að heimsækja söfnuðinn í Grímsey ef ég næði kjöri því þangað náði ég aldrei í kosningabaráttunni og hef reyndar aldrei komið þangað.

Það mun sem sagt verða eitt af mínum fyrstu verkum að heimsækja Grímsey, sem skartaði sínu fegursta við sjóndeildarhringinn í gærkveldi þegar við hjónin fórum í miðnætursólarferð til Siglufjarðar.

Í Hólastifti eru þrjú prófastsdæmi og í hverju prófastsdæmi eru kirkjumiðstöðvar, sem við höfum allar heimsótt og skoðað.  Þær eru til fyrirmyndar og stórkostlegt starf sem í þeim er unnið.  Við allt þetta starf hyggst ég styðja og leggja mitt af mörkum til að efla.  Það er hins vegar áberandi að Vestmannsvatn þarfnast mestrar lagfæringar við til að hægt sé að bjóða öllum aldurshópum að dvelja þar allan ársins hring.  Kirkjumiðstöðin á Vestmannsvatni verður 50 ára eftir tvö ár og tel ég mikilvægt að fyrir afmælið verði búið að gera þær lagfæringar sem miðstöðin þarfnast.  Mun ég leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Dagurinn eftir kjörið var hins vegar ekki liðinn þegar mér barst fyrsta formlega erindið en það var að vera við kirkjuafmæli á Siglufirði sunnudaginn 2. september, en ef Guð lofar mun ég taka við embætti þann 1. september.

Siglufjörður skartaði sínu fegursta þegar við ókum þangað seint í gærkveldi.  Himininn var heiður og fjörðurinn spegilsléttur.  Grímsey blasti við.  Miðnætursólin blindaði okkur við sjóndeildarhringinn.  Hvílík fegurð!

Texti: solveiglara.net