Sögudagur á Sturlungaslóð í Skagafirði

Laugardaginn 17. ágúst næstkomandi verður sögudagurinn á Sturlungaslóð í Skagafirði haldinn í fimmta sinn. Að þessu sinni verður gestum og gangandi boðið í hringferð um Hegranesið undir leiðsögn Þórs Hjaltalíns minjavarðar Norðurlands vestra. Mæting er við Hegranesþingstað klukkan 13 þar sem Þór segir frá staðnum og þaðan verður haldið í Ás, fyrrum höfuðból Ásbirninga, og endað í Keldudal þar sem miklar fornminjar hafa fundist. Þátttakendur keyra á milli staðanna á einkabílum.

Um kvöldið klukkan 20 hefst Ásbirningablótið í Kakalaskálanum hjá Sigurði Hansen í Kringlumýri. Bjarni Harðarson frá Selfossi, bóksali með meiru, mun flytja erindi ásamt Skúla Gautasyni menningarfrömuði í Hörgárbyggð. Ólöf Ólafsdóttir og Friðrik Jónsson verða með tónlistaratriði og veislustjóri er Sigurður Hansen. Hótel Varmahlíð framreiðir miðaldakræsingar að vanda.

Miðaverð er 4.000 krónur og panta þarf fyrir klukkan 18 föstudaginn 16. ágúst í síma 453 8170.