Snjóflóðaæfing í Hlíðarfjalli

Í gær héldu viðbragðsaðilar í Eyjafirði ásamt starfsmönnum í Hlíðarfjalli á Akureyri æfingu í því að takast á við snjóflóð sem hefði fallið á skíðasvæðinu og að talsverður fjöldi skíðaiðkenda hefði lent í flóðinu. Æfing sem þessi hefur verið haldin árlega undanfarin ár og verður ávallt viðameiri með ári hverju og reynslan og fagmennskan hjá þessum aðilum eykst af sama skapi.  Þess má geta að Hlíðarfjall er eina skíðasvæðið á landinu sem hefur slíka viðbragðsáætlun og nú á æfingunni í dag voru fulltrúar nokkurra skíðasvæða á hliðarlínunni og fylgdust með hvernig staðið er að þessu hér hjá okkur.