Til fjalla á Tröllaskaga er talsvert af nýjum snjó sem kom í síðustu viku.  Snjóflóð féllu nokkuð víða um síðastliðna helgi, m.a. á Siglufjarðarveg, í Karlsárfjalli, Karlsárdal og Leyningssúlum. Snjóflóð féll einnig undan vélsleða á Kaldbak á sunnudag.  Snjógryfjur frá því um helgina benda þó til að nýi snjórinn sé að styrkjast en spáð er vaxandi A- og síðar NA-átt með snjókomu til fjalla næstu daga og er fólk hvatt til að fara með gát þegar ferðast er um brattar snævi þaktar hlíðar. Mikill nýr snjór er í fjöllum og ef flekaflóð fara af stað af mannavöldum má búast við meðalstórum flóðum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.