Snjóflóð féll við Dalvík

Snjóflóð féll norðan Dalvíkur við Sauðanes rétt fyrir klukkan sjö í kvöld. Að sögn lögreglunnar lenti einn maður í flóðinu en hann er ekki talinn illa slasaður. Hann var í hópi fimm skíðamanna, en félagar hans sluppu allir. Ólafsfjarðarvegurinn þar sem snjóflóðið féll er lokaður og að sögn lögreglu hefur þurft að snúa fólki frá beggja megin við snjóflóðið. Mikil snjóflóðahætta hefur verið á þessu svæði síðustu daga. Snjóflóðið er talið vera nokkuð stórt.

Þá er snjóþekja á Siglufjarðarvegi en á Norðurlandi vestra eru hálkublettir á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði.