Upp hefur komið smit hjá starfsmanni á Kristnesspítala semer staðsettur 10 km sunnan Akureyrar. Vegna þess þurfa 13 sjúklingar og 10 starfsmenn í sóttkví. Talið er að viðeigandi sóttvörnum hafi verið fylgt sem vonandi mun lágmarka smithættu en þrátt fyrir það kallar þetta á viðbrögð sem hafa áhrif á starfsemina.

Gert er ráð fyrir að þjónustan á Kristnesspítala verði takmörkuð næstu tvær vikurnar. Þeir 18 sjúklingar sem ekki þurfa í sóttkví verða útskrifaðir. Ekki er gert ráð fyrir nýjum innlögnum næstu tvær vikurnar á Kristnesspítala. Önnur starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri er óbreytt að sinni.

Um 60 manns starfa nú á Kristnesspítala í um 46 stöðugildum. Í hópnum eru  læknar, sjúkraþjálfar og aðstoðarmenn, iðjuþjálfar og aðstoðarmenn, félagsráðgjafi, sálfræðingur, 15 hjúkrunarfræðingar, 16 sjúkraliðar, húsvörður og 5 almennir starfsmenn, m.a. í eldhúsi og við þrif. Flestir starfsmenn á Kristnesspítala búa á Akureyri en þó nokkrir í Eyjafjarðarsveit, þar af um 20% í þorpinu í Kristnesi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Kristnesspítali