Í byrjun vikunnar fékk Slökkvilið Fjallabyggðar afar krefjandi verkefni í hendurnar þegar eldur kom upp í stóru iðnaðarhúsnæði við Óskarsgötu á Siglufirði. Ljóst var strax í upphafi að aðgerðir slökkviliðs yrðu umfangsmiklar og erfiðar.
Mikill eldur var í húsinu þegar að var komið og sjáanlegur á þriðju hæð hússins. Ákveðið var strax í upphafi að kalla eftir aðstoð frá Slökkviliði Dalvíkurbyggðar og Slökkviliði Akureyrar.
Slökkvilið fékk upplýsingar strax í upphafi að ekkert fólk væri í húsinu. Umrætt húsnæði er stórt og flókið og var ákveðið að allt slökkvistarf færi fram utandyra og var enginn reykkafari sendur inn í húsnæðið.
Slökkvistarf tók um 13 klukkustundir, eftir það tók við bruna- og öryggisvakt þar sem þurfti að fara nokkrum sinnum og slökkva í glóð og eldhreiðrum.
Vindátt var hagstæð og hlýtt þegar eldurinn kom upp. Mikinn reyk lagði frá eldsvoðanum og fór hann allur á haf út en ekki inn í bæinn.
Margir aðilar tóku þátt í verkefninu en þeir voru:
Slökkvilið Dalvíkur, Slökkvilið Akureyrar, Brunavarnir Skagafjarðar, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Björgunarsveitin Strákar, Björgunarskipið Sigurvin, Slysavarnadeildin Vörn á Siglufirði, sjúkraflutningamenn HSN á Siglufirði, Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar, BÁS og Rarik.
Þetta kom fram í tilkynningu frá Slökkviliðinu í Fjallabyggð ásamt ljósmyndum.
