Slæmt ferðaveður og ófærð á Norðurlandi

Ferðaveður og færð eru áfram léleg um allt norðanvert landið. Áframhaldandi norðan átt, 13-20 m/s með hríðarveðri og skafrenningi og mjög takmörkuðu skyggni en austan Eyjafjarðar mjakast hitinn hægt yfir frostmark á láglendi, þá verður úrkoma meira slyddukennd og þar með er mikil hætta á hálku á vegum þar sem snjór er fyrir.

Hálka eða hálkublettir eru í Húnavatnssýslum og skafrenningur en snjóþekja er á Öxnadalsheiði. Ófært er á Þverárfjalli en þæfingsfærð er svo á Vatnsskarði og milli Sauðárkróks og Hofsós en svo er ófært frá Hofsósi og út í Fljót. Síðan er Siglufjarðarvegur lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu, og Ólafsfjarðarmúli sömuleiðis. Ófært er á milli Dalvíkur og Akureyrar og stórhríð.

Unnið að mokstri á Víkuskarði en annars eru flestir vegir ófærir á Norðausturlandi en þó er þæfingsfærð og stórhríð milli Húsavíkur og Reykjahlíðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni kl. 10:22 í dag.