Undanfarin ár hefur B- listi Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð lagt áherslu á að skoðað verði til hlítar hvort hægt sé að virkja Brimnesá og gera sveitarfélagið minna háð flutningi rafmagns annars staðar frá. Við munum hvernig fór í desember 2019 og fundum það hversu háð við erum rafmagni sem samfélag. Fengnar voru verkfræðistofur til að meta hvaða ár í sveitarfélaginu hentuðu best til virkjunar og meta svo hvort að virkjun væri hagkvæm fyrir sveitarfélagið.

Loks eftir margra ára bið kom skýrsla og það má segja að fjallið hafi tekið joðsót og fæðst hafi mús. Niðurstaðan var sú að virkjun í Brimnesá væri ekki arðbær og sveitarfélgið ætti ekki að fara í slíka framkvæmd. Eina niðurstaðan sem ég sá í þessari skýrslu var að sú virkjun sem að verkfræðingarnir reiknuðu út var óhagkvæm. Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að virkja í Brimnesá og gera það á hagkvæman hátt. Enda leið ekki á löngu þar til einkaaðilar sem hafa reynslu af uppbyggingu virkjana fóru að hafa samband og lýsa yfir áhuga á að virkja í ám í sveitarfélaginu og hafa Brimnesá og Þorvaldsdalsá verið nefndar í því samhengi.
Einkaaðilar sjá sem sagt hag sinn í að virkja en ekki sveitarfélagið. Ég sé ekki hvernig það getur staðist. Ætti sveitarfélagið ekki að sjá hag sinn í að virkja á sinn kostnað fyrst að fyrirtæki með reynslu af virkjanauppbyggingu gera það?. Viljum við njóta ágóðans af virkjun eða eigum við að selja aðgang að náttúruauðlindum okkar til fyrirtækja sem eru eingöngu hagnaðardrifin. Er ekki betra að tekjur af rafmagnsölu verði eftir í sveitarfélaginu. Hægt er að nýta auknar tekjur til að gera fyrirhugað virkjunarsvæði aðgengilegt fyrir útivist auk þess að nýta tekjurnar til að byggja upp mikilvæga innviði sveitarfélagsins.

Mín skoðun er búin að vera sú sama allan tíman. Ef virkjað verður í sveitarfélaginu þá ætti sveitarfélagið að gera það á sinn kostnað og taka til sín allan framtíðarágóða. Núverandi meirihluti sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar vill skoða þá leið að bjóða út réttindi til virkjunar í Brimnesá en ég er alfarið á móti því að svo stór ákvörðun verði tekin án þess að vita skoðun íbúa sveitarfélagsins fyrst. Þess vegna gerði ég það að tillögu minni að kannaður verði hugur íbúa hvort og svo hver eigi að virkja í Brimnesá og það verður gert á næstu vikum. Það er algjörlega nauðsynlegt að svona framkvæmd fari ekki af stað nema í góðu samráði og með vilja íbúa. Hvet ég alla til að taka þátt í þessari könnun og koma þannig á framfæri ykkar skoðun um þetta mikilvæga málefni.

Fundur Byggðaráðs næstkomandi fimmtudag verður sá síðasti sem ég mun sitja sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar. Við fjölskyldan erum að flytja suður á land á vit nýrra áskoranna og því er ég búinn að segja mig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið frá næstu mánaðarmótum. Ég er búinn að sitja í ráðum og nefndum bæjarins síðan 2014 og nú munu aðrir taka við keflinu.

Öllum þeim sem hafa tekið þátt í sveitarstjórnarmálum undanfarin 11 ár þakka ég samstarfið og sérstaklega starfsfólki Dalvíkurbyggðar fyrir vinnu þeirra og ánægjuleg samskipti undanfarin ár.

Grein:

Felix Rafn Felixson,
fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúi B-lista Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð.