Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið Skagafjörður þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina um hröðun undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar. Nú sem aldrei fyrr er lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hefur verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekkja sem aka daglega um veginn. Nýlegar myndir sýna svo ekki er um villst að það er ekki spurning um hvort – heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar og fellur í sjó fram.

Mælingar sem eru opinberar á heimasíðu Vegagerðarinnar sýna þannig færsluhraða á flötum við veginn sem nemur allt að 2,5 cm lóðrétt á dag og enn meiri láréttar færslur. Talið er að af þessum sökum verði veginum lokað mun oftar í framtíðinni en verið hefur vegna öryggisráðstafana og ekki er óraunhæft að fólk þurfti að horfast í augu við það að Siglufjarðarvegur getur lokast án fyrirvara.

Byggðarráð Skagafjarðar skorar á alþingismenn og innviðaráðherra að tryggja að undirbúningi og endanlegri hönnun jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Byggðarráð hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna og veglagningu beggja vegna gangnamunna.