Grunnskólanum austan Vatna var slitið nú í vikunni og var fyrsta athöfnin í skólanum á Sólgörðum kl. 11:00. Jóhann Bjarnason skólastjóri og Sjöfn Guðmundsdóttir deildarstjóri fluttu ávörp. Herdís Á Sæmundardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs sveitarfélagsins afhenti nemendum miðstigs bókina Skín við sólu Skagafjörður og Kristín Sigurrós Einarsdóttir umsjónarkennari rakti 75 ára sögu Sólgarðaskóla sem nú var slitið í síðasta sinn í bili að minnsta kosti. Nemendur fengu rós með vitnisburðinum og minnislykil að gjöf með upptökum og ljósmyndum af viðburðum í skólanum. Þetta kemur fram á skagafjordur.is.
Einnig var athöfn á Hólum þar sem vinaliðar voru verðlaunaðir fyrir sína vinnu og nemendur leikskólans Tröllaborgar voru útskrifaðir og teknir formlega inn í grunnskólann. 7. bekkur útskrifaðist frá Hólum en þau fara í Hofsós næsta skólaár og miðdeildin fékk afhenta bókina Skín við sólu Skagafjörður. Tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum voru flutt milli atriða og endað á kaffi og meðlæti.
Á Hofsósi var athöfnin kl. 18:00, en þar voru vinaliðar einnig verðlaunaðir og miðdeildinni afhent bókin Skín við sólu Skagafjörður. Nemendur 10. bekkjar voru útskrifaðir og verðlaunaðir fyrir góða frammistöðu í hinum ýmsu námsgreinum og fyrir félagsstörf. Íþróttabikarinn var veittur fyrir jákvæðni og góða frammistöðu í íþróttum og tónlistaratriði flutt á milli atriða.
