Skóflustunga að nýjum göngu- og hjólreiðastíg í Eyjafjarðarsveit

Síðastliðinn laugardag tók Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, fyrstu skóflustunguna að nýjum göngu- og hjólreiðastíg sem tengir Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit og Akureyri. Þetta ásamt ljósleiðaratengingu allra heimila, er eitt stærsta framkvæmdaverkefni Eyjafjarðarsveitar á kjörtímabilinu en sveitarfélagið stendur að framkvæmdinni við stíginn ásamt Vegagerðinni.

Stígurinn er um 7,5 kílómetra langur og liggur meðfram Eyjafjarðarbraut vestari frá Hrafnagilshverfi að bæjarmörkum Akureyrar. Stígurinn verður 4,5 metra breiður og þar af verða 2,5 metrar klæddir slitlagi. Verkið verður unnið í tveimur áföngum, þ.e. undirbygging og fleiri verkþættir í fyrri áfanga sem áætlað er að verði lokið fyrir jól. Sá verkhluti var boðinn út fyrr í sumar og átti Finnur ehf. lægsta tilboð, 81,5 milljónir króna. Síðari áfangi verksins er slitlagslögnin og verður hún boðin út síðla næsta vetrar. Gert er ráð fyrir að stígurinn verði fullbúinn í sumarbyrjun 2018.

Jón Stefánsson, oddviti sveitarstjórnar, sagði framkvæmdina í senn framlag til útivistar almennings og mikið öryggisatriði. Umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarenda á veginum milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar sé mikil og nauðsynlegt að aðskilja hana með þessum hætti. Fram kom í máli hans að framan af undirbúningi var Akureyrarbær einnig þátttakandi í verkefninu en tók ákvörðun á síðari stigum um að draga sig út úr því. Jón þakkaði sérstaklega landeigendum á vegstæðinu, en gott samstarf við þá og velvilji hefur reynst mikilvægur fyrir framvindu verkefnisins.
Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, sagði í ávarpi við þetta tækifæri að rekja megi aðdraganda þessarar framkvæmdar til þeirrar lagabreytingar sem gerð var fyrir 10 árum þegar Vegagerðinni var heimilað að taka þátt í gerð göngu- og hjólastíga í samráði við sveitarfélögin. „Fram að því höfðu slík verkefni verið alfarið á borði sveitarfélaganna en það var ekki síst með tilliti til umferðaröryggisins og aukinnar áherslu á þann þátt sem við unnum að því að fá þetta inn í lög,“ sagði Hreinn en fram til þessa hafa flest slík verkefni verið á suðvesturhorni landsins. Fyrstu tvö stígaverkefnin utan höfuðborgarsvæðisins líta dagsins ljós í ár og er stígurinn í Eyjafjarðarsveit það stærsta.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, sagði til fyrirmyndar hversu ötullega sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hafi unnið að framgangi verkefnisins. „Sú leið sem við erum að fara, sem er ekki alveg óþekkt, þ.e. að til verður samstarfsverkefni þar sem allir leggjast á eitt um að bæta lífsgæði fólks, er til fyrirmyndar og eitthvað sem við viljum sjá gerast í ríkara mæli. Svona verkefni er þegar upp er staðið mikilvægt til að ýta undir bylgju breytts lífsstíls og alls þess jákvæða sem fylgir því að greiða fyrir almenningssamgöngum og að hjólið og gangan verði raunhæfur samgöngumáti. Það skilar sér að lokum til okkar í bættri lýðheilsu. Þannig verður samfélagslegur ávinningur að svona framkvæmdum umfram það sem við höfum almennt lagt mat á í samgöngumálum til þessa.“ – Sagði Jón Gunnarsson, samgönguráðherra.

Heimild: esveit.is