Skoða gerð frisbígolfvallar í Fjallabyggð

Íslenska frisbígolfsambandið sendi kynningu á frisbívöllum til Fjallabyggðar í byrjun júní og kannaði hugsanlegan áhuga sveitarfélagsins á uppsetningu. Erindið fékk jákvæða umsögn hjá Fjallabyggð og kom fram að frisbígolfvellir væru góð viðbót á útivist og hreyfingu fyrir alla aldurshópa í Fjallabyggð og falla vel að markmiðum heilsueflandi samfélags.

Áætlaður kostnaður við uppsetningu slíks vallar er 2 milljónir en getur verið breytilegur eftir því hvort um heilsársbrautir er að ræða og ef sveitarfélagið getur sjálft framkvæmt uppsetningu. Rætt var um að 8 svæði í Fjallabyggð gætu komið til greina undir slíkan völl, og hefur verið samþykkt vinna kostnaðarmat við gerð vallarins.

Töluvert landsvæði þarf undir völlinn og eru eftirfarandi svæði möguleg til slíkra staðsetningar:
-Austan Hólsár á Siglufirði, við Hól.
-Saurbæjarás Siglufirði, austan kirkjugarðs.
-Við Skógræktina, á leið upp í Skarð, Siglufirði.
-Neðan þjóðvegar utan við þéttbýlið í Siglufirði, við enda Hvanneyrarbrautar.
-Skeggjabrekkudal, Ólafsfirði.
-Austan við sumarhúsabyggð í Hólkoti, Ólafsfirði.
-Sunnan við Hornbrekku, Ólafsfirði.
-Í kringum íþróttamiðstöð, grunnskóla, knattspyrnuvöll og menntaskóla (MTR) í Ólafsfirði

Nokkrir frisbígolfvellir eru nú þegar á Norðurlandi og yrði þetta góð viðbót við það. Ódýrt er að stunda frisbígolf, en hægt er að kaupa sér búnað fyrir 2000 kr. til að byrja íþróttina.