Skipan í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað fulltrúa í stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál, sbr. ákvæði 2. gr. laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015. Hlutverk stýrihópsins er að efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum sem snúa að byggðamálum og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í þessum málaflokki.

Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar allra ráðuneyta og fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk áheyrnarfulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Hópurinn vinnur út frá þeirri skilgreiningu að byggðamál séu öll þau viðfangsefni sem hafi áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, s.s. búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúi að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem og lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta, eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti og ná til alls landsins.

Meðal verkefna stýrihópsins samkvæmt erindisbréfi er að:

 • Vera ríkisstjórn til ráðgjafar í byggðamálum.
 • Auka samráð ráðuneyta á sviði byggðamála.
 • Vinna að því að samhæfa byggðamál að annarri stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera þannig að horft sé til byggðaþróunar með heildstæðum hætti.
 • Hafa aðkomu að gerð byggðaáætlunar og fylgjast með framvindu hennar.
 • Vinna með landshlutasamtökum sveitarfélaga að því að sóknaráætlanir verði farvegur fyrir samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd byggðaáætlunar.
 • Vinna að því að fella fleiri viðfangsefni og samninga að sóknaráætlunum landshluta.
 • Styðja landshlutasamtök sveitarfélaga við gerð og framkvæmd sóknaráætlana landshluta.
 • Skila árlegri greinargerð til ráðherra byggðamála um framvindu sóknaráætlanasamninga og ráðstöfun fjármuna.
 • Vinna drög að viðmiðunarreglum vegna útdeilingar fjármuna milli landshluta.
 • Staðfesta sóknaráætlanir landshluta og áhersluverkefni þeirra.
 • Staðfesta verklagsreglur landshlutasamtaka vegna úthlutana úr uppbyggingarsjóðum.
 • Hafa almennt samráð og samskipti um framkvæmd sóknaráætlunarsamninga og fylgja eftir ákvæðum samninga um skil og upplýsingagjöf.

Heimild: stjornarrad.is