Skíðaparadísin í Skarðsdal á Siglufirði gæti opnað um næstu helgi ef aðstæður og veður leyfir, en góður grunnur af snjó er nú þegar á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni svæðisins er stefnt að því að opna svæðið laugardaginn 18. nóvember kl. 11:00, og yrði þá ein lyfta opnuð. Frítt yrði á svæðið þennan daginn og yrði opið til kl. 15:00.  Hægt verður að mæta með sleða, bretti, þotur og auðvitað skíði.  Nánari upplýsingar um þessa opnun verður á vef skíðasvæðins, skardsdalur.is.

Framkvæmdir á sjálfu skíðasvæðinu frestast fram á næsta ár, en byrjað var á vegaframkvæmdum nú í haust og búið er að tryggja fjármagn til að klára þá framkvæmd á næsta ári. Nýr skíðaskáli verður byggður á næsta ári ef áætlun stenst og einnig þarf að færa tvær skíðalyftur. Þá er í gangi söfnun á töfrateppi eða færibandi sem verður vonandi sett upp á næsta ári.

Skíðasvæðið hefur fengið nýjan snjótroðara sem er mjög öflugt tæki að gerðinni Pisten Bully 600 og er með spili.

Þá er að fara í gang forsala á vetrarkortum frá 20. nóvember og stendur til 03. desember og verða til sölu í Aðalbakarí.

Kort fullorðins          18.000.- í stað 25.000.-
Kort barna                7.000.- í stað 10.000.-
Kort framhalds/háskólanema  11.000.- í stað 15.000.-
Öllum kortum fylgir Norðurlandskortið