Skíðastökkpallurinn í Ólafsfirði er mjög sérstök bygging sem vekur mikla eftirtekt þeirra sem leið eiga um Ólafsfjörð. Verkefnið og bygging stökkpallsins hófst árið 1967 og var það Íþróttabandalag Ólafsfjarðar, Íþróttafélagið Leiftur og Ólafsfjarðarbær sem stóðu að verkinu ásamt Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar og var að mestu unnið í sjálfboðavinnu. Formaður bygginganefndar var Björn Þór Ólafsson. Samkvæmt upplýsingum frá Birni var verkfræðingurinn og þáverandi formaður Skíðasambands Íslands,  Einar Baldvin Pálsson, fenginn til að hanna og staðsetja stökkpallinn, en hann hafði hannað fleiri stökkpalla á Íslandi á þessum tíma. Fjölmargir komu að smíðinni, en helst ber að nefna þá Svavar. B. Magnússon og Svanberg Þórðarson. Rótarýfélagar hjálpuðu til við verkið meðal annars þegar steypuvinnan hófst.

Samkvæmt blaðagrein úr Alþýðublaðinu frá 1969 kemur fram að  Edgar Guðmundsson verkfræðingur og Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir arkitektar hafi gert teikningar og sérfræðilegan undirbúning.  Pallurinn var hugsaður ungum skíðaiðkenndum og áttu þeir að geta stokkið allt að 15 metra í brautinni. Pallurinn var mikið notaður fyrstu áratugina, enda mikill áhugi fyrir skíðastökki á þessum tíma í Ólafsfirði.

Viðhald og umhirða skíðapallsins er eitt af samfélagsverkefnum sem Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur sinnt síðustu áratugi. Í sumar var farið í að mála pallinn og á síðasta ári var lagfærð skrautlýsing á pallinum.

Skíðastökk er því miður ekki lengur keppnisgrein á Íslandi, en pallurinn er helst nýttur sem vatnsrennibraut í kringum 17. júní hátíðina í Fjallabyggð.

Mynd: Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar, K.Haraldur Gunnlaugsson.