Skíðafélag Ólafsfjarðar bauð upp á fjölbreytta dagskrá yfir páskana, en meðal annars var farið í liðakeppni í skíðaskotfimi, þar sem einn var á gönguskíðum og annar á svigskíðum. Um var að ræða tilraun en gengnir voru um 600 metrar og þá komið í skotstöð, eftir að búið var að skjóta skipti göngumaðurinn við alpagreinamann sem keyrði niður stutta svigbraut og fór þar í aðra skotstöð til að klára sprettinn.

Þá var boðið upp á páskaeggjaleit. Keppt var í Smáramóti í stórsvigi sem fram fór í gilinu við golfskála Golfklúbbs Fjallabyggðar, en snjóleysi hefur verið undanfarið í Tindaöxl. Skíðagöngubrautin í Skeggjabrekkudal var að sjálfsögðu klár fyrir þá sem vildu skella sér á gönguskíði.

Myndir með fréttinni koma frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar.