Skíðafélag Ólafsfjarðar er 19 ára, sunnudaginn 18. október. Skíðasaga Ólafsfjarðar nær auðvitað miklu lengra en til ársins 2001 en félagið var stofnað þegar skíðadeild Leifturs var lögð niður á þessum tíma. Skíðaíþróttin hafði þá verið undir merkjum Leifturs frá árinu 1976.
Í dag er mikið um að vera hjá Skíðafélagi Ólafsfjarðar. Ný heimasíða félagsins er opinberuð í tilefni dagsins. Síðan er enn í vinnslu en töluvert komið inn af efni og fréttum af starfi félagins. Mikil vinna hefur verið hjá stjórn félagsins að undanförnu og hafa foreldrar og velunnarar ekki látið sitt eftir liggja í þeirri vinnu.
Búið er að reisa nýjan lyftuskúr og geymsluskúr við skíðalyftuna. Kominn er upp grunnur fyrir tímatökuhús fyrir skíðagönguna og vonast er til að klára að reisa það hús nú í október. Mikil vinna hefur verið lögð í að laga snjógirðingar í Bárubraut og eru bara nokkrar girðingar eftir í þeirri vinnu. Snjógirðing milli 3.-5. staur var færð í Tindaöxl sem breikkar brekkuna töluvert niður með lyftunni.
Framundan er svo að setja nýja ljóskastara í Bárubraut auk þess að grafa niður öryggisvír með skíðalyftunni.
Þetta kemur fram á heimasíðu skiol.is.
