Von er á fyrsta skemmtiferðaskipinu í Sauðárkrókshöfn,fimmtudaginn 14. júlí. Alls eru fjórar skipakomur bókaðar í sumar, tvær í júlí og tvær í ágúst. Nú þegar er búið að bóka fimm skipakomur næsta sumar og þrjár sumarið 2024.
Fyrsta skipið til að stoppa við í Skagafirði er Hanseatic Nature. Skipið mun sigla frá Noregi til Íslands og Grænlands í þessari ferð og tekur allt að 230 farþega.
Tilgangur með komu skemmtiferðaskipa í Skagafjörð er að lyfta undir með ferðaþjónustunni og fá fleiri ferðamenn. Það er staðreynd að skemmtiferðaskip hafa reynst gríðarlega mikilvæg fyrir ferðaþjónustuaðila, veitingahúsa- og verslunareigendur á Siglufirði, Húsavík, Ísafirði, Seyðisfirði og fleiri stöðum á Íslandi.
Ferðaþjónustuaðilar vítt og breitt um Skagafjörð eru með ferðir í sölu fyrir skipin og það eru ferðaþjónustufyrirtækin Iceland Travel og Atlantik sem sjá um að þjónusta skipin og selja ferðirnar fyrir ferðaþjónustuaðila. Ekki munu allir farþegar fara í ferðir, svo búast má við töluverðum fjölda ferðafólks á Sauðárkróki þessa daga.
Dagsetningar skemmtiferðaskipakoma í Sauðárkrókshöfn í sumar:
14. júlí (fimmtudagur) – Hanseatic Nature. Skipið tekur allt að 230 farþega.
29. júlí (föstudagur fyrir verslunarmannahelgi) – World Explorer. Skipið tekur allt að 200 farþega.
13. ágúst (laugardagur) – Azamara Pursuit. Skipið tekur allt að 774 farþega.
19. ágúst (föstudagur) – Azamara Pursuit. Skipið tekur allt að 774 farþega (ekki sömu farþegar og 13. ágúst).