Skallaði lögreglumann í andlitið á Akureyri

Föstudagurinn langi var heldur betur langur og erilsamur hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.  Um morguninn var lögregla kölluð til vegna manns sem lét ófriðlega á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þegar verið var að reyna róa manninn niður og veita honum hjálp, skallaði hann lögreglumann í andlitið. Maðurinn var yfirbugaður og í framhaldi fékk hann þá aðstoð sem í boði var á sjúkrahúsinu. Lögreglumaðurinn var bólginn í andlitinu og fékk skurð á nefið.

Um klukkan 14:00 var síðan tilkynnt að maður hefði verið stunginn með hníf tvívegis í lærið í Kjarnaskógi, eftir að ósætti og átök brutust út á milli aðila þar. Hinn slasaði var fluttur
á sjúkrahús til aðhlynningar, en það blæddi töluvert úr sárum hans. Hann er ekki lengur í lífshættu. Sá sem grunaður er um að hafa stungið hann var síðan handtekinn í bifreið á Akureyri
um kvöldmatarleytið en í bifreiðinni sem hann var í, fundust meðal annars barefli og exi. Skömmu síðar var par handtekið grunað um aðild að málinu og fannst nokkuð magn af fíkniefnum í fórum þeirra. Alls voru fimm handteknir í tengslum við það fíkniefnamál. Parið og árásaraðilinn í hnífstungumálinu voru vistuð í fangageymslu en þremur aðilum var sleppt að loknum yfirheyrslum vegna fíkniefnamálsins.

Þá var drengur handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna í nótt.

Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.