Skákþing Norðlendinga á Sauðárkróki

Skákþing Norðlendinga 2017 er haldið nú um helgina á Kaffi Krók, á Sauðárkróki.  Mótið hófst á föstudagskvöldið og voru telfdar 4 umferðir af 25 mínútna atskákum. Einnig var spilað í dag og mótslok verða á sunnudaginn, en þá verður umhugsunartíminn 90 mínútur á skákina +30 sek. á hvern leik.  Eftir lokaumferðina verður Hraðskákmót Norðlendinga haldið og hefst kl. 14.30 eða síðar.  Skákmeistari Norðlendinga getur aðeins orðið sá sem á lögheimili á Norðurlandi, en mótið er öllum opið.  Skákdómari er Ingibjörg Edda Birgisdóttir. 21 keppandi.

Staðan eftir fyrstu tvo dagana er sú að Ingvar Þór Jóhannesson hefur náð vinningsforskoti á Skákþingi Norðlendinga eftir sigur á Erni Leó Jóhannssyni í 5 umferð sem hófst kl. 11 í morgun og lauk um kl. 15.  Í 2. – 5. sæti með 3 1/2 vinning eru Róbert Lagermann, Gauti Páll Jónsson, Haraldur Haraldsson og Tómas Veigar Sigurðsson, en Haraldur og Tómas eru efstir Norðlendinga.

Verðlaun eru sem hér segir 1. sæti 45.000 kr.  2. sæti 30.000  3. sæti 20.00  4. sæti 15.000 5. sæti 10.000  Aukaverðlaun fær efsti skákmaður með minna en 1800 stig, 10.000 kr.