Skákdagurinn verður haldinn hátíðlegur um allt land laugardaginn 26. janúar, sem er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar. Opið hús verður hjá Skákfélagi Akureyrar á skákdaginn og verður m.a. blásið til opins skákmóts fyrir börn og unglinga. Mótið hefst kl. 13 í Skákheimilinu í Íþróttahöllinni við Skólastíg. Allir sem kunna mannganginn og eru yngri en 18 ára eru velkomnir á þetta mót. Í fyrra var skákdagsins m.a. minnst með „sundtafli” í Sundlaug Akureyrar. Í þetta sinn verður leikurinn endurtekinn í Hrafnagilslaug þar sem nýtt fljótandi skáksett verður vígt að morgni skákdagsins.

Haraldur efstur á Skákþinginu

Skákþing Akureyrar stendur nú yfir.  Á mótinu er teflt um titilinn Skákmeistari Akureyrar í 75. sinn, en mótið hefur verið haldið síðan 1938. Í meistaraflokki eru 10 þátttakendur og eftir þrjár umferðir er Haraldur Haraldsson efstur, hefur unnið allar skákir sínar. Næstur honum er Sigurður Arnarson með 2,5 vinning, en Rúnar Ísleifsson og Andri Freyr Björgvinsson hafa 2 vinninga. Fjórða umferð verður tefld annað kvöld og hefst kl. 18.

Heimild: vikudagur.is