Skagafjörður mótmælir harðlega niðurskurði á fjárframlögum

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fordæmir harðlega þá ætlun stjórnvalda, sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012, að halda áfram stórfelldum niðurskurði á fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki. Fjárframlög til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki hafa lækkað um 35% frá árinu 2008 sem er mun meiri niðurskurður en aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu hafa þurft að sæta. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs nemur þessi niðurskurður 8,4% lækkun frá fyrra ári sem er skerðing um 64,2 m.kr. að raungildi. Fyrir vikið hefur þurft að skerða þjónustu gagnvart íbúum svæðisins meira en víðast hvar annars staðar sem aftur hefur leitt til lakari lífsgæða og aukins kostnaðar sem fellur á íbúa vegna þess að þeir þurfa að sækja þjónustu langar leiðir í aðra landshluta.

Þá átelur byggðarráð vinnubrögð stjórnvalda í þessum málaflokki þar sem ekkert samráð er haft við heimaaðila um möguleika til hagræðingar án þess að hún bitni um of á veittri þjónustu. Er það þvert á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs þar sem lögð er áhersla á mikilvægi samráðs og samvinnu, ekki síst við veitendur og fulltrúa notenda opinberrar þjónustu. Í sömu samstarfsyfirlýsingu er frjálslega talað um verndun starfa, kynjajafnrétti, áhrif á byggðir og kynjaða hagstjórn  sem er í besta falli grátbroslegt þegar haft er í huga að niðurskurður fjárframlaga til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki hefur þýtt að stöðugildum við stofnunina hefur þegar fækkað um 22 frá árinu 2008. Voru flest þessara starfa innt af hendi kvenna.

Ef fram fer sem horfir mun boðaður niðurskurður valda því að stöðugildum mun enn fækka um 12-13 á næsta ári. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fer fram á að velferðarráðherra og ríkisstjórn endurskoði boðaðan niðurskurð hjá Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki og hafi í huga að komið er að mörkum þess að óbætanlegt tjón geti hlotist af.