Skaðabætur vegna Héðinsfjarðarganga yfir 500 milljónir

Í dag var samþykkt á Alþingi að ríkissjóður greiði verktökum 577 milljónir króna vegna frestunar á gerð Héðinsfjarðarganga árið 2003. Formaður fjárlaganefndar segist gjarnan hefði viljað nýta þessa fjármuni í annað.

Sumarið 2003 ákváðu stjórnvöld að fresta gerð Héðinsfjarðarganga, en verksamningur hafði þá verið gerður við Íslenska aðalverktaka og sænska verktakafyrirtækið NCC International. Fyrirtækin höfðuðu skaðabótamál á hendur ríkinu og Hæstiréttur dæmdi ríkissjóð til að greiða þeim 259 milljónir króna í skaðabætur, auk 318 milljóna í dráttarvexti. Þessi greiðsla var samþykkt við afgreiðslu fjáraukalagafrumvarps á Alþingi í dag.

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, segir að það beri að greiða þessum aðilum 577 milljónir króna og verið sé að gera það upp núna. Þetta séu gríðarlegir peningar miðað við það að menn velta fyrir sér hverri einustu krónu sem sé til útgjalda, eins og heyra megi á umræðunni í þinginu.

Frétt frá Rúv.is