Sjómennska, fiskvinnsla og mannlíf í Ólafsfirði á ljósmyndasýningu Svavars Berg í Pálshúsi

Um 80 ljósmyndir úr safni Svavars Berg Magnússonar eru nú til sýnis í Pálshúsi í Ólafsfirði. Sömuleiðis listilega gerð líkön af skipum og bátum sem Magnús Gamalíelsson gerði út frá Ólafsfirði sínum tíma og margvíslegir munir tengdir útgerðarsögu fyrirtækis Magnúsar og fjölskyldu hans.

 

  • Sýningin verður opnuð formlega í Pálshúsi á laugardaginn kemur, 7. júlí, kl. 15:00. Annars er opið þar daglega kl. 11-17 í sumar og ókeypis aðgangur að ljósmyndasýningunni.

 

Áhugaljósmyndarinn Svavar Berg er sonur hjónanna Magnúsar Gamalíelssonar og Guðfinnu Pálsdóttur. Í safni hans eru um 55.000 ljósmyndir og frá því hefur verið gengið að Minjasafnið á Akureyri fái safnið til varðveislu. Margar ljósmyndir Svavars komu fyrir augu fjölda landsmanna því hann sá Morgunblaðinu fyrir fréttamyndum frá Ólafsfirði áratugum saman.

Að sýningunni í Pálshúsi stendur sjávarútvegsfyrirtækið RAMMI í Fjallabyggð í samstarfi við Svavar Berg. Tilefnið er að liðin eru 90 ár frá því Magnús Gamalíelsson hóf útgerð og fiskvinnslu á eigin vegum. Fyrirtækið hans varð síðar eitt hið öflugasta í sjávarútvegi á Norðurlandi með höfuðstöðvar í Ólafsfirði og rekstur líka í Keflavík.

Magnús Gamalíelsson hf. sameinaðist Þormóði ramma-Sæbergi hf. árið 1997 og fleiri félög sameinuðust í félagi sem nú heitir RAMMI með útgerð frá Fjallabyggð og Þorlákshöfn og vinnslu sjávarafurða á báðum stöðum.

Með sýningarhaldinu vill RAMMI heiðra elstu sögurætur sínar og jafnframt heiðra skrásetjarann með myndavélina, Svavar Berg Magnússon, í tilefni áttræðisafmælis hans 11. október næstkomandi.

Sýningarskrá

Forsíðumynd sýningarskrárinnar. Hún sýnir Magnús Gamalíelsson við Ólafsfjarðarhöfn 19. maí 1979 þegar hann tók á móti Sigurbjörgu ÓF-1, skuttogara sem hann lét smíða í Slippstöðinni á Akureyri.

Texti: Aðsend fréttatilkynning