Staðfest hefur verið að sýni sem Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra tók fimmtudaginn 5. október síðastliðinn í Ólafsfirði, innihéldu Escherichia coli (E. coli) gerla. Vatnsveitan í Ólafsfirði fær vatn úr tveim vatnsbólum það er úr Múla og Brimnesdal. Niðurstaða sýnatöku gaf til kynna að vatnsbólið sem þjónar einkum nyrðri hluta bæjarins m.a. fiskvinnslunum á Ólafsfirði sé í lagi og vandinn sé bundinn við vatnsbólið í Brimnesdal.

Flestar E. coli bakteríur eru skaðlitlar, en ef E. coli finnst í neysluvatni, þá bendir það til þess að hættulegar bakteríur geti leynst í vatninu. Íbúum er því ráðlagt sem varúðarráðstöfun að sjóða vatnið.  Umhverfis- og tæknideild Fjallabyggðar hefur verið upplýst um málið og hefur nú þegar hafið vinnu við endurbætur.